Lagið NEINEI varð fljótt og nokkuð óvænt vinsælasta lag ársins hér á landi en það kom út febrúar á þessu ári. Lagið er gefið út af samfélagsmiðlahópnum Áttunni en það er unnið af þeim Lárusi Erni Arnarssyni og Inga Þór Bauer.
Nú aðeins 172 dögum eftir að lagið kom út hefur það verið spilað rúmlega milljón sinnum á Youtube. Þá hefur lagið verið spilað rúmlega 800 þúsund sinnum á Spotify. Það þýðir að hlustað hefur verið á NEINEI rúmlega tíu þúsund sinnum á dag frá því í febrúar. Þá eru ekki teknar með spilanir í útvarpi.
Nökkvi Fjalar Orrason, sölu og markaðsstjóri Áttunnar, segir að erfitt sé að útskýra þessa miklu velgengni en telur að grípandi viðlag spili stóra rullu. „Ég held að það hafi verið grípandi viðlag sem gerði það að verkum að lagið fór strax á flug,“ segir Nökkvi í samtali við Nútímann.
Viðlagið er einfalt og það virðast allir geta lært það. Við vorum að spila á Þjóðhátíð í Eyjum um helgina og hver einasti maður söng með.
Hægt er að kaupa áhorf á Youtube með ýmsum hætti í gegnum erlenda þjónustuaðila og fljótlega eftir útgáfu lagsins fóru af stað umræða á Twitter um að Áttan hefði gert það. Nökkvi hrakti þá umræðu í færslu á Facebook en viðurkenndi að umtalið sem lagið fékk í kjölfarið hefði haft jákvæð áhrif.
„Við vissum alltaf að þessar fáránlegu sögur væru ekki sannar og það var leiðinlegt að fá þessa neikvæðu athygli eftir alla vinnuna sem fór í lagið. Við ákváðum að svara fyrir okkur og það hjálpaði til við að vekja athygli á laginu,“ segir Nökkvi.
Áttan vinnur nú að því að gefa út nýtt lag sem von er á í september og stefnan er að gera enn betur. „Það kemur út nýr smellur í september og markmiðið er auðvitað að toppa NeiNei,“ segir Nökkvi.