Auglýsing

Nemendur í Kvennó segja skólameistara sínum til syndanna í opnu í bréfi

Nemendur Kvennaskólans hvetja skólameistara sinn, Hjalta Jón Sveinsson til að breyta viðhorfi sínu til jafnréttismála í opnu bréfi sem þeir birta á vef nemendafélagsins Keðjunnar.

Hjalti Jón sendi nemendum tölvupóst á dögunum þar sem hann tók sérstaklega fram að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með það hversu margar stúlkur virðast vera farnar að nota munntóbak. Hann baðst síðar afsökunar á ummælum sínum.

Sjá einnig: Skólameistari Kvennó hélt að það væru aðallega strákar sem tækju í vörina

Nemendur skólans segja í bréfi sínu að mikill hiti sé í umræðu um skilaboð hans til nemenda um tóbaksnotkun. „Í sjálfu sér er ekkert við orð þín sem er sérlega athugavert,“ segir í bréfinu.

Að sjálfsögðu er það slæmt hversu margar stúlkur nota munntóbak – í raun væri það slæmt þó ekki væri nema ein stúlka sem notaði munntóbak.

Í bréfinu kemur fram að sú staðreynd að honum þótti nauðsynlegt að ávarpa stúlkur sérstaklega í stað þess að ávarpa nemendur sem heild hafi vakið reiði nemenda.

Nemendurnir benda á að kannanir landlæknis og rannsóknir á tóbaksneyslu í grunnskólum sýni að karlar séu almennt mun líklegri til að neyta munntóbaks.

„Að því gefnu að litlar breytingar hafi orðið á neyslu má einnig yfirfæra þessar niðurstöður yfir á framhaldsskólanemendur,“ segir í bréfinu.

„Það er því lítið sem gefur tilefni til þess að stúlkur séu ávarpaðar sérstaklega í þessu samhengi – í raun væri mun rökréttara að benda á hve hættuleg neysla drengja er, þar sem hún er hlutfallslega meiri en hjá stúlkum.“

Nemendurnir segja í bréfinu að hugarfarið sem virðist fylgja þessum skilaboðum hafi farið illa í nemendur. „Mjög auðvelt er að túlka skilaboðin á þann hátt að það sé á einhvern hátt minna viðeigandi fyrir stúlkur en drengi að neyta tóbaks,“ segir þar.

„Umrætt hugarfar virðist svo staðfest í tölvupósti þínum til formanns femínistafélagsins Þóru Melsteð, en þar segir orðrétt: „Nú virðist hafa komið í ljós að þær séu farnar að æ fleiri stúlkur séu farnar að nota munntóbak. Það kom mér á óvart og auðvitað veldur það mér miklum vonbrigðum. Ég hélt hreinlega að þær væru skynsami er svo.“ Það sem helst hefur þótt athugavert við þessi orð er notkun alhæfinga á grundvelli kyns – að stúlkur séu að eðlisfari skynsamari en drengir.“

Nemendurnir vilja benda Hjalta á hversu skaðleg slík hugsun getur verið fyrir stúlkur en einnig fyrir drengi sem séu samkvæmt þessarri hugsun óskynsamir og minna reiðurbúnir að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

„Sú hugsun að drengir séu á einhvern hátt óþroskaðri en stúlkur fær oft mikinn grundvöll í nútímasamfélagi – að strákar séu og verði alltaf strákar. Það er á okkar ábyrgð sem samfélags að setja spurningamerki við allar slíkar hugmyndir og reyna að útrýma úreltum staðalmyndum um kynin.

Nemendur Kvennaskólans eru að meirihluta stúlkur og hefur nemendasamfélagið alltaf látið sig jafnréttismál varða. Við vonum því að þetta bréf hafi vakið þig til umhugsunar og muni hvetja þig til að breyta viðhorfi þínu til hins betra.“

Smelltu hér til að lesa bréfið.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing