Auglýsing

Nemendur Seljaskóla ætla að skrópa í tíma til að styðja kennara: „Ástandið hér er svo slæmt“

Nemendur í unglingadeild Seljaskóla ætla að fara heim úr skólanum kl. 10 næsta föstudag  og skrópa í tíma eftir það til að sýna kennurum sínum stuðning í kjarabaráttu þeirra.

Tuttugu og tveir kennarar í skólanum hafa sagt starfi sínu lausu síðastliðinn mánuð vegna óánægju með kjaramál.

„Ástandið hér er svo slæmt. Helmingur kennara okkar hefur sagt upp,“ segir Petrína Kristjánsdóttir, nemandi í 10. bekk í Seljaskóla.

Þetta gæti endað með því að það verði enginn eftir til að kenna íslenskum börnum.

Þau Hafsteinn Jónsson, sem einnig er nemandi í skólanum, stofnuðu viðburðinn „Ósanngjörn launakjör kennara“ á Facebook og boða þar til aðgerðanna. Þegar þetta er skrifað hafa 108 manns sagst ætla að taka þátt.

„Við erum jú framtíðin og viljum að sjálfsögðu gera hvað sem við getum til að halda kennurum okkar. Ef það er skortur á kennurum er skortur á gæðamenntun,“ segir Petrína.

Hún segir að kennararnir leggi mikið á sig og eigi skilið betri laun og það hafi einnig hvatt þau til að boða til þessara aðgerða. Hún segir að langflestir í unglingadeild Seljaskóla ætli að taka þátt, nemendur í 8. – 10. bekk.

Í umræðum á viðburðinum kemur fram að nemendur í Holtaskóla á Suðurnesjum og Ölduselsskóla ætli einnig að taka þátt og skrópa.

Rætt var við Magnús Þór Jónsson, skólastjóra Seljaskóla, í frétt Vísi í gærkvöldi þar sem fjallað var um málið. Þar sagði hann að starfsmenn skólans muni setjast yfir málið í dag.

„Við tökum það að sjálfsögðu alvarlega að nemendur vilji taka afstöðu með kennurum en ætlum kannski að reyna að finna þeim annan farveg en þennan,“ sagði Magnús um málið.

Uppfært kl. 12:51

Ákveðið hefur verið að aflýsa aðgerðunum.

„Ákveðið hefur verið að hætta við þessar framkvæmdir vegna þess að það er rangt að skrópa í skóla og við ætlum að gera þetta á betri og fagmannlegri hátt,“ skrifar Hafsteinn inn á viðburðinn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing