Þjónusta streymisveitunnar Netflix er nú í boði hér á landi. Þjónustan er raunar í boði um allan heim, að undanskildum nokkrum löndum samkvæmt frétt á vef Comingsoon.net.
Hægt er að skrá sig hér. Þjónustan kostar frá tæpum átta evrum á mánuði, eða um 1.100 krónum.
Á Twitter hefur fólk efast en Netflix tók af öll tvímæli rétt í þessu.
@pallvidar @AirlineFlyer Yes, Iceland.
— Netflix US (@netflix) January 6, 2016
Fólk hér á landi hefur hingað til nýtt sér þjónustu Netflix með krókaleiðum. Netflix boðaði komu sína til Íslands á vefsíðu sinni í ágúst. „Þjónusta okkar verður í boði á Íslandi fljótlega,“ sagði í skilaboðum á vefsíðu Netflix en það var í fyrsta skipti sem fyrirtækið boðaði komu sína til landsins opinberlega.
Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá því í október árið 2014 að Netflix væri að vinna að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi.
Í febrúar í fyrra var svo greint frá því að Sam-félagið hafi náð samningum við Netflix. Þá var gert ráð fyrir að opnað verði fyrir þjónustuna seint á þessu ári. Árni Samúelsson staðfesti þetta við fréttastofu RÚV.
Áður en Netflix opnaði fyrir þjónustu sína hér á landi þurfti fyrirtækið að semja um sýningarréttinn á kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og barnaefni.
Viðræður afþreyingarrisans við íslensku fyrirtækin hófust í fyrra. Búið er að semja við Sam-félagið en í janúar var greint frá því að viðræður við Senu væru langt komnar en að viðræðurnar við Myndform séu ekki eins langt komnar.
Að minnsta kosti 20 þúsund íslensk heimili eru tengd Netflix í gegnum krókaleiðir, samkvæmt könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið.