Netflix hefur undanfarið gert tilraunir með að loka á notendur sem fara krókaleiðir til að kaupa áskrift að þjónustunni. Fyrirtæki sem bjóða upp á þessar krókaleiðir segja að það verði áfram auðvelt að komast framhjá þeim hindrunum sem settar verða. Þetta kemur fram á vefnum Torrent Freak.
Í september árið 2013 var talið að allt að 20.000 heimili væru með aðgang að Netflix á Íslandi. Þau gætu verið miklu fleiri í dag en öll beita þau krókaleiðum til að kaupa áskrift að þjónustunni.
Fyrirtækið TorGuard býður upp á VPN-þjónustu sem gerir notendum kleift að komast framhjá landfræðilegum hindrunum í átt að áskrift að Netflix, ásamt ýmsu öðru.
Ben Van der Belt hjá TorGuard segir í samtali við Torrent Freak að fyrirtækið hafi tekið eftir vandamálum hjá notendum um miðjan desember:
Mig grunar að Netflix sé að prófa aðferðir til að loka fyrir notendur í nokkrum löndum. Enn sem komið er virðast aðferðirnar ekki róttækar og það gæti verið að þær beinist aðeins að þeim sem nota áskrift sína á mörgum stöðum í einu.
Vandamálin voru þó ekki meiri en svo að notendur gátu haldið áfram að nota Netflix og enn sem komið er virðast aðgerðir afþreyingarrisans vera tímabundnar.
Annað: Nýtt á Netflix í janúar
Hjá TorGuard segja þeir að notendum verður boðið upp á auðvelda lausn til að komast framhjá hindrunum Netflix, ef af þeim verður. Aðrar þjónustur hafa sömu sögu að segja, samkvæmt frétt Torrent Freak.
Í september greindi Nútíminn frá því að stórfyrirtæki á borð við Warner, Universal og fleiri rétthafar myndefnis í Ástralíu væru að þrýsta á Netflix að loka á notendur sem fara krókaleiðir til að kaupa áskrift að þjónustunni.
Aðgerðirnar í desember virðast vera fyrstu skrefin í þessa átt.
Netflix vinnur að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi. Afþreyingarrisinn hefur átt í viðræðum við Myndform um kaup á ýmsu myndefni sem íslenska fyrirtækið á sýningarrétt á hér á landi. Viðræðurnar hafa staðið yfir síðan í ágúst á síðasta ári.
Netflix hefur þar með hafið viðræður við þrjá stærstu dreifingaraðila kvikmynda- og sjónvarpsþátta á Íslandi: Sam-félagið, Senu og Myndform.
Netflix hefur undanfarið unnið að opnun fyrir þjónustu sína hér á landi, eins og Nútíminn greindi frá í síðasta mánuði. Í örskýringu Nútímans um málið kom fram að viðræður séu hafnar við rétthafa á íslensku efni en afþreyingarrisinn býður ávallt upp á innlent efni í þeim löndum þar sem þjónustan er í boði.
Sam-félagið, Sena og Myndform eiga stóran hluta af því efni sem líklegt er að Netflix sækist eftir. Mbl.is hafði áður greint fyrir viðræðum fyrirtækisins og Senu.