Auglýsing

Nettavisen um mál Eddu Bjarkar: Gæti fengið sex ára dóm

Nettavisen, einn stærsti fréttamiðill Noregs, fjallar um mál Eddu Bjarkar Arnardóttur á forsíðunni í dag. Í umfjölluninni kemur fram að Edda Björk megi eiga von á þungri fangelsisrefsingu en með því var þrjátíu daga gæsluvarðhaldsúrskurður yfir henni rökstuddur af héraðsdómi Vestfold.

Það er blaðamaðurinn Kjetil Bortelid Mæland sem skrifar um málið fyrir Nettavisen en hann hefur fjallað um fjölmörg mál í Noregi þar sem börn hafa verið brottnumin.

Í frétt Nettavisen kemur fram að Edda Björk hafi sagt fyrir dómi að hún viti ekki hvar drengirnir eru niðurkomnir á Íslandi. Þetta sagði hún bæði fyrir héraðsdómi og við réttargæslumann drengjanna sem var sérstaklega skipaður til þess að gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.

Nútíminn hefur undir höndum gæsluvarðhaldsúrskurðinn en samkvæmt honum ætlar ríkissaksóknari að ákæra Eddu Björk fyrir brot á 261. grein norskra hegningarlaga en sá lagabókstafur snýr að frelsissviptingu og getur Edda Björk því átt von á allt að sex ára fangelsisdómi.

Landsréttur staðfesti framsalsbeiðni norskra yfirvalda en með því skilyrði að Eddu Björk, ef fundin sek, fengi að afplána dóminn hér á landi. Það þýðir að ef Edda Björk fengi þyngstu refsingu fyrir brot sitt að þá þyrfti hún að afplána tvö ár í íslensku fangelsi, það er 1/3 af dómnum, áður en hún fengi að nýta sér önnur úrræði eins og Vernd og ökklaband.

Samkvæmt heimildum Nútímans er talið að ríkissaksóknari í Noregi sækist eftir refsingu í þyngri kantinum þar sem Edda Björk hefur endurtekið sýnt að hún virðir ekki dómsúrskurði, hvorki í Noregi eða á Íslandi. Þá er talið vega þungt í ákvörðun ríkissaksóknara sú staðreynd að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún brýtur af sér og að hún vilji ekki gefa upp dvalarstað drengjanna.

Nútíminn hefur fjallað ítarlega um mál Eddu Bjarkar undanfarna daga og vikur – umfjöllun fjölmiðla hefur verið frekar einsleit og af þeim sökum var ákveðið að fá löggildan norskan túlk til þess að þýða dómsskjöl yfir á íslensku og birta á vefnum. Með því er vonast til þess að lesendur fái báðar hliðar á málinu – burtséð frá upphrópunum, slúðri og gífuryrðum á samfélagsmiðlum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing