Auglýsing

Neytendavaktin: veitingahús á Íslandi

Ég tók út nokkur veitinga- og kaffihús á Íslandi. Í stuttu máli hafa allir staðirnir sprenghlægilega galla á sama tíma og þeir hafa allir frábæra kosti. Gaman væri að heyra hvort lesendur átta sig á hvaða staðir þetta eru.

1. Fyrsti veitingastaðurinn sem ég heimsótti er í eigu hjóna sem stunda keramik af mikilli ástríðu og er almennt agalega flinkt í höndunum. Diskar, bollar, stólar og borð staðarins eru handgerð af eigendunum. Viðskiptavinurinn finnur að bollinn sem hann drekkur úr var sannarlega unnin af ást.

En þar er enginn til að afgreiða, þjónustustúlkan situr inn í eldhúsi og bíður eftir að heyra ,,HALLÓ!“ í viðskiptavinunum. Þá kostar súpa dagsins hálfa hendina og það er ekki innifalið að fá súpuna á borðið. Þú verður að ná í hana sjálfur.

2. Annar veitingastaður er í litlu þorpi úti á landi. Hann er svona kaupfélags veitingastaður. Ég á við að þar getur þú pantað allt sem þú munt nokkurn tíman geta ímyndað þér að hægt sé að leggja sér til munns og þú munt þar af leiðandi aldrei þurfa að fara neitt annað.

Hversdagslegur hamborgari og franskar í hádeginu með vinnufélögunum? Þetta er staðurinn. Eigið þið tuttugu ára brúðkaupsafmæli og viljið fá folaldasteik og rauðvín í skjóli nætur? Farðu á þennan stað vegna þess að á kvöldin er hvítum dúkum hent á borðin, ljósin dimmuð og steikurnar dregnar fram. Þið munuð ekki sjá nein ummerki um menningarsnauðu hamborgaraæturnar sem trúðu í sig frönskum á ykkar borði nokkrum klukkustundum áður. Ertu ungur og vitlaus? Ekkert mál, þegar klukkan slær tíu er kveikt á diskókúlunni og borðum og stólum er ýtt til hliðar fyrir sull og gleði.

Gæðin á matnum eru hins vegar ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir og kaffið sem staðurinn kennir sig við er ódrekkandi.

3. Þriðji staðurinn er fínt bakarí sem er líka að reyna að vera kaffihús. Þetta tiltekna kaffihús er landsfrægt fyrir flottustu kökurnar.

Það er hins vegar ekki í boði að skola bakkelsinu niður nema með einni tegund af tei, Melrose úr Bónus. Þér boðið að dýfa tepokanum í hálffullt (eða hálftómt) pappamál af moðvolgu vatni.

4. Fjórði staðurinn er ódýr og býður upp á afgreiðslu á núll einni vegna þess að það er alltaf bara einn réttur í boði. Kokkurinn, sem er líka eigandi staðarins er því með allt tilbúið þegar þú mætir þangað í hádeginu.

Skilvirkni eigandans kemur þó niður á snyrtimennskunni. Hann mætir galvaskur að afgreiðslukassanum, nýbúinn að hræra í brúnu sósunni og er þá enn í óhreina netabolnum, sem rímar svo ljómandi vel við matseðil vikunnar.

Skilvirknin kemur einnig fram í því að plássið er nýtt til hins ítrasta með því að í matsalnum er ekki gert ráð fyrir að þangað komi bæði pör, fjölskyldur og vinahópar. Þar eru einfaldlega stór langborð. Þetta gerir það að verkum að þú getur ekki búist við að sitja þar í rómantískum erindagjörðum. Fyrirvaralaust sest hjá ykkur annað hvort gröfumaður eða bankastarfsmaður, byrjar að skófla upp í sig rétti dagsins og bindur þannig snöggan enda á allt tilfinningalíf.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing