Úlfur Úlfur sendi á dögunum frá sér plötuna Tvær plánetur. Platan er mjög velheppnuð og stútfull af skemmtilegum tilvísunum í samtímann.
Sjá einnig: Bakvið tjöldin með Úlfi Úlfi
Nútíminn grúskaði örlítið í textunum á plötunni og fann níu skemmtilegar tilvísanir sem þeir félagar koma ansi skemmtilega fyrir í textunum sínum.
1. Tár, bros og takkaskór eftir Þorgrím Þráinsson
Tár, bros og takkaskór kom út árið 1990 og sló strax rækilega í gegn hjá unglingum landsins. Þetta kemur fyrir í laginu Tár, bros og Jordans.
2. Ég geri það sem ég vil með Skyttunum
Skytturnar voru vinsæl hipp hopp-hljómsveit frá Akureyri og þetta er vísun í smellinn Ég geri það sem ég vil. Skytturnar voru tilnefndar sem bjartasta vonin hjá Íslensku tónlistaverðlaununum árið 2003. Þetta er úr laginu Úrið mitt er stopp pt. II.
3. Sauðárkrókur
Eins og helstu tónlistarmenn þjóðarinnar, frábært körfuboltalið og besta bakarí landsins eru strákarnir í Úlfi Úlfi frá Sauðárkróki. Þetta er úr laginu 100.000.
4. Sara í Júník
Söru í fataversluninni Júník bregður fyrir á ansi skemmtilegan hátt í laginu 100.000. Er þar vísað í frægar útvarpsauglýsingar hennar.
5. Faktorý
Faktorý var tónleika- og skemmtistaður í miðbæ Reykjavíkur sem lokaði árið 2013. Þar er nú verið að reisa hótel. Þessi vísun er einnig í laginu 100.000.
6. Keli í Agent Fresco
Og meira í laginu 100.000. Hér er vísað í hinn hárprúða Kela, trommara hljómsveitarinnar Agent Fresco.
7. Margrét Maack og Kastljósið
Fjölmiðlakonan og sirkusdrottningin Margrét Erla Maack var í hópi þeirra sem fékk uppsagnarbréf á RÚV árið 2013. Þá starfaði hún í Kastljósinu. Hún hefur þó haldið áfram að starfa fyrir stofnunina sem spurningahöfundur og dómari í Gettu betur. Þessi vísun er í laginu 101.
8. Stórir strákar fá raflost
Hér er vísað í stórsmellinn Stórir strákar fá raflost með Egó. Þessi vísun er í laginu 101.
9. Bróðir minn ljónshjarta
Hver hefur ekki lesið söguna Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren? Þessi vísun er í laginu 101.