Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um mannlausa bifreið í hverfi 220 en samkvæmt tilkynningunni var hún á fremur óheppilegum stað. Þegar laganna verðir mættu á vettvang sáu þeir hvar mannlausri bifreiðinni hafði verið lagt eða svo gott sem skilin eftir á miðri akrein. Samkvæmt dagbók embættisins var hún fjarlægð með dráttarbifreið.
Ekki fylgdi sögunni hver eigandi ökutækisins væri en sá mun eflaust fá símtal frá löggunni í dag – það er að segja ef hann hefur ekki nú þegar fengið það símtal.
Þetta er eitt af þeim verkefnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu glímdi við á nýafstaðinni vakt sem náði frá 17:00 í gær og þar til 05:00 í morgun.
Þrír voru stöðvaðir á hinum ýmsu stöðum á höfuðborgarsvæðinu ýmist undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Þá var einn sem ók réttindalaus og annar sem ók á bifreið en stakk af. Þetta átti sér stað í hverfi 203 en samkvæmt lögreglunni er vitað hver gerandinn er og er málið sagt í rannsókn.
Farið varlega í umferðinni – það styttist í jól!