Nokkur af þeim löndum sem taka þátt í Eurovision í ár hafa lýst yfir vilja sínum til að draga sig úr keppninni vegna þess að Julia Samylova, flytjandi framlags Rússlands, fær ekki að koma til Úkraínu til að flytja lag sitt í kepnninni.
Örskýring: Mun Úkraína koma í veg fyrir að Rússland taki þátt í Eurovision í ár?
Frá þessu er greint á Facebook-síðu FÁSES, Félags áhugafólks um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en þetta kemur fram í bréfi EBU, Samband Evrópskra sjónvarp- og útvarpsstöðva og stofnandi Eurovision, til forsætisráðherra Úkraínu.
Hér má sjá bréfið í heild sinni en EBU hefur staðfest að það sé ófalsað.
Í bréfinu kemur einnig fram að aldrei áður hafi það gerst að gestgjafi Eurovision banni keppanda frá öðru landi þátttöku í keppninni. Þetta gæti orðið til þess að úkraínsku sjónvarpsstöðinni UA: PBC verði ekki leyft að taka þátt í viðburðum EBU í framtíðinni.
EBU fer að lokum fram á að úkraínski forsætisráðherrann stígi inn í deiluna þannig að Samoylova verði heimiluð þátttaka í Eurovision í maí, við sömu aðstæður og og aðrir keppendur. Bréfið var sent 23. mars, daginn eftir að tilkynnt var um ferðabann Juliu Samoylova, en hefur nú fyrst ratað til fjölmiðla, líkt og kemur fram á Facebook-síðu FÁSES.