Rapparinn Halldór Kristinn Harðarson eða KÁ/AKÁ hefur sent frá sér nýtt lag. Lagið heitir Verum Ein og er fyrsta lag Halldórs á þessu ári.
Halldór vakti fyrst athygli í rappsenunni á Íslandi árið 2016 þegar hann sendi frá sér lög á borð við Draugar og Yuri. Á síðasta ári sendi hann frá sér plötuna Bitastæður þar sem hann fékk aðstoð frá góðum vini sínum Birki Bekk.
Halldór segir að á laginu Verum Ein sé hann að sýna á sér aðra hlið en hann hefur áður gert.
„Hér fáið þið að heyra mjúku hliðina á mér sem birtist ekki alltof oft, en hún er til staðar, setjið eldivið í eldstæðið, hitið ykkur kakó og farið jafnvel í sleik,” segir Halldór.
Lagið sem er unnið í samstarfi við tónlistarmanninn Togga Nolem er komið á YouTube og verður svo aðgengilegt á Spotify síðar í vikunni.