Auglýsing

Norðmaður festi eista í kolli frá Ikea, hékk fastur og dinglaði þegar hann stóð upp

Færsla hins norska Claus Jørstad á Facebook-síðu Ikea í Noregi hefur vakið töluverða athygli en hann varð fyrir því óhappi að festa annað eistað í stólnum Marius frá fyrirtækinu. Færslunni hefur verið deilt rúmlega ellefu þúsund sinnum og fjölmargir hafa skilið eftir athugasemd.

Claus var meiddur á hné og ákvað að fjárfesta í kollinum til að geta setið í sturtuklefanum á meðan hann væri í sturtu. Norðmaðurinn vildi greinilega fara varlega að Svíunum og bregður því fyrir sig myndlíkingum þegar hann talar um kynfærin. „En þið eruð sænsk,“ segir Claus.

Ég veit að þið eruð ekki fyrir beinar lýsingar á æxlunarfærum líkamans, svo ég kalla þau skipstjóra og áhöfnina.

Claus var ánægður með kaupin, kom sér fyrir á kollinum í sturtuklefnum og hófst handa við að þrífa sig. „En svo þegar það er komin sápa á þilfarið og skipstjórinn og áhöfn hans er farið að svima vegna þokunnar, þannig að þeir eru farnir að renna til líkt og drukknir sjómenn,“ skrifar hann og vísar til gufunnar frá heita vatninu.

Skyndilega rennur annar sjómaðurinn niður í eitt gatið á kollinum. Því tók Claus reyndar ekki eftir fyrr en hann reyndi að standa upp. „Þá hékk stóllinn fastur og dinglaði og ég fann fyrir sársauka,“ skrifar hann. Hvernig sem hann reyndi náði hann eistanu ekki aftur upp í gegnum gatið.

Að lokum náði Claus þó að leysa málið. Hann settist niður og beið eftir því að heita vatnið sem var að skornum skammti, kláraðist. Þá varð honum kalt, eistað dróst saman og losnaði. „Kuldinn gerði það að verkum að uppblásni skipverjinn dróst aftur saman,“ skrifar Claus og þá varð hann frjáls maður á ný. „En ég er með eina spurningu, er hægt að fá kollinn í gulum lit?“ spyr hann.

Nokkrum klukkustundum síðar svarar fulltrúi Ikea í Noregi færslu Claus. Starfsmanninum þykir leitt að heyra að svona hafi farið fyrir áhöfninni og mælir með því að Claus noti stólinn frekar til að geyma falleg blóm í potti. Claus svarar starfsmanninum og segist hafa fundið lausn á málinu, hann setti einfaldlega þvottapoka á stólinn til að varna því að eistun festist aftur.

Hægt er að fá kollinn Marius í verslun Ikea á Íslandi og kostar hann 895 krónur. Nútíminn sér þó ástæðu til að vara karlmenn við að feta í fótspor Claus.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing