Myndbönd úr kynfræðsluþáttunum Newton, fyrir nemendur í þriðja bekk í Noregi, hafa vakið talsverða athygli á internetinu. Bandaríski fréttavefurinn The Daily Beast fjallar um myndböndin og ber þau saman við kynfræðsluna vestanhafs.
Í einu af myndböndunum fer læknirinn Line Jansrud í sleik við tómat til að sýna krökkunum hvernig á að fara að því. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
„Þessi tómatur er ekki með tungu en þetta er ekki ósvipað og að kyssa í alvöru,“ segir hún.
Ýmislegt annað er útskýrt í þáttunum. Jansrud notar til dæmis ryksugu til að gefa sér sogblett, útskýrir sjálfsfróun ásamt því að fara yfir vísindin á bakvið fullnæginguna. Þá er einnig fjallað um bólur, líkamshár og brjóst.
Þættirnir eru sýndir í norska ríkissjónvarpinu NRK. Kirsti Moe, framleiðandi þáttanna, segir í samtali við The Daily Beast, að börnin séu tilbúin fyrir fræðsluna.
Þessi börn eru að verða kynþroska og þau eru nógu gömul til að sjá að þau eru að breytast. Þættirnir svara spurningum sem þau eru byrjuð að spyrja.
Þáttunum hefur verið vel tekið í Noregi að sögn Moe og aðeins örfáar kvartanir hafa borist.