Erlendir aðdáendur sjónvarpsþáttarins Skam geta ekki lengur horft á hann á síðunni skam.p3.no þar sem NRK hefur lokað á aðgang áhorfenda utan Noregs.
Samningarnir sem NRK hefur gert vegna notkunar á tónlist í efni sem þeir framleiða sjálfir gera ekki ráð fyrir vinsældum þátttanna víða um heim.
Þetta kemur fram á Vísi en þar segir að lokunin sé að kröfu IFPI, alþjóðlegra samtaka tónlistarútgefenda.
Þættirnir, sem eru eingöngu með norskum texta, hafa notið vinsælda víða um heim. NRK vonast til þess að finna lausn á málinu sem fyrst svo aðdáendur geti haldið áfram að fylgjast með þáttunum á löglegan hátt.
Búið er að sýna þrjár þáttaraðir og er von á þeirri fjórðu.
Á vef RÚV, þar sem hægt er að horfa á tvær þáttaraðir, segir að Skam sé ný vefþáttaröð frá NRK um ungmenni á síðasta ári sínu í grunnskóla.
„Lífið tekur stöðugum breytingum, allt er nýtt og að sama skapi afskaplega flókið. Ástin, samfélagsmiðlar, vinirnir og útlitið er dauðans alvara fyrir unglingana í Hartvig Vissen-skólanum í Ósló,“ segir um þættina.