Enn er ekki komið á hreint hvað verður um trúfélagið Zuism og þar af leiðandi, hvort skráðir meðlimir þess fái sóknargjöld sín endurgreidd líkt og þau sem tóku við félaginu í lok árs 2015 lofuðu.
Félagið hefur verið án forstöðumanns frá 12. janúar. Málið er til skoðunar hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra og hefur afgreiðsla þess dregist vegna nýrra gagna sem starfsmaður aflaði í málinu og þurfti að fara yfir.
Sjá einnig: Framtíð trúfélagsins Zúista í lausu lofti, óvíst hvort takist að endurgreiða sóknargjöldin
Halldór Þormar Halldórsson hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra sér um málið og það var hann sem óskaði eftir gögnunum. Hann segist í samtali við Nútímann ekki geta upplýst um hvaða gögn er að ræða en segir að hefðu þau verið lögð fram þegar tekist var á um sóknargjöld félagsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hefðu þau getað haft veruleg áhrif á niðurstöðu málsins.
Þetta er flókið mál, förum aðeins yfir það…
Trúfélagið Zuism fékk formlega skráningu 2013. Rekstrarfélag var stofnað og árið 2014 voru skráðir meðlimir þrír. Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir voru í forsvari fyrir trúfélagið.
Árið 2014 tók gildi reglugerð um að það þurfi að lágmarki 26 meðlimi svo heimilt sé að skrá trú- eða lífsskoðunarfélag.
Í apríl í fyrra skoraði sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á þá sem töldu sig veita trúfélaginu Zuism forstöðu eða sitja í stjórn þess að gera sig fram. Þar sem meðlimirnir voru aðeins þrír stóð til að leggja félagið niður.
Í nóvember 2015 kom í ljós að hópur fólks hafði svarað kalli sýslumannsins og tekið yfir trúfélagið. Ný stjórn félagsins hét því að endurgreiða sóknargjöld til meðlima og þá varð trúfélagið eitt það stærsta á landinu.
Það var þá sem bræðurnir Ágúst og Einar sneru aftur. Þeir töldu sig enn vera í forsvari fyrir rekstrarfélag Zuism og höfðuðu mál á hendur Ríkissjóði Íslands til að fá greidd sóknargjöld félagsins, rúmlega 33 milljónir sem nýja stjórnin vildi endurgreiða meðlimum. Bræðurnir töpuðu málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. febrúar.
Í dómnum kemur fram að innanríkisráðuneytið telji að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar sýslumaður ákvað að skrá Ísak Andra sem forstöðumann 2015.
Aftur að fréttinni…
Halldór segir að ákvörðunin um framtíð félagsins muni liggja fyrir á næstunni en þó gæti farið svo að óskað verði eftir fleiri gögnum í málinu og þá muni afgreiðsla þess væntanlega tefjast enn frekar.
Við vitum því ekki enn hvort og þá hvenær meðlimir Zuism, Zúistar á Íslandi, fái sóknargjöld sín endurgreidd.