Hljómsveitin Rock Paper Sisters hefur gefið út sitt fyrsta lag. Eyþór Ingi Gunnlaugsson er söngvari sveitarinnar sem varð til í partýi á Dalvík. Hlustaðu á fyrsta lag sveitarinnar hér að neðan.
Sveitina skipa þeir Eyþór Ingi sem syngur og spilar á gítar, Jón Björn Ríkarðsson, úr hljómsveitinni Brain Police, sem spilar á trommur, Þorsteinn Árnason á bassa og Þórður Sigurðsson á hljómborð.
Howling Fool er fyrsta lagið sem sveitin gefur frá sér en í viðtali við Garg.is segir Þorsteinn Árnason að annað lag sé tilbúið og fleiri séu á leiðinni á næstunni.
Eyþór Ingi segir við Garg að þeir hafi viljað semja tónlist án þess að ofhugsa hlutina, svokallað áhyggjulaust rokk. Lagið Howling Fool hafi orðið til á fyrstu æfingu sveitarinnar.
„Á æfingu tvö tókum við það upp live, ekkert click-track og ekkert rugl. Við óverdöbbum að sjálfsögðu eitthvað en það er einhver svona over all fílingur sem skilar sér í upptökunni. Hugmyndin er að vinna þetta strax og gefa þetta út um leið,” segir Eyþór Ingi við Garg.is