Tökur á Ófærð, nýrri leikinni þáttaröð, hefjast í nóvember. Þáttaröðin kostar um milljarð í framleiðslu og eru viðræður þegar hafnar um bandaríska endurgerð þáttanna samkvæmt fréttum Sjónvarpsins í kvöld.
Þættirnir gerast í litlu íslensku bæjarfélagi að vetri til. Íbúar eru veðurtepptir þegar lík rekur upp í fjöru. Tökur fara fram í Reykjavík, á Siglufirði og á Seyðisfirði. Baltasar Kormákur leikstýrir þáttunum ásamt Baldvini Z og Óskari Þór Axelssyni. Baldvin leikstýrði síðast Vonarstræti og Óskar er leikstjóri Svartur á leik.
Þættirnir verða sýndir á RÚV á næsta ári. Búið er að selja sýningarréttinn til ríkissjónvarpsstöðva allra Norðurlanda og til stórra sjónvarpsstöðva í Þýskalandi og Frakklandi. Baltasar er ánægður:
Þannig að þetta hefur verið alveg frábært að sjá hvernig þetta hefur gengið og svo erum við að semja um remake-réttinn á þessu í Bandaríkjunum og það sem er mjög athyglisvert því við erum ekki byrjaðir að taka upp eina einustu senu á Íslandi.