Poppstirnið og sjálfsástardrottningin, Ariana Grande gaf út enn einn stórsmellinn nú á dögunum. Lagið ber titilinn „7 Rings“ og er innblásið af íburðarmiklum verslunarferðum Grande og stórefnaða vinkvenna hennar.
Lagið hefur slegið í gegn og er „7 Rings“ annað lag hennar sem nær sæti á Billboard Hot 100 listanum í Bandaríkjunum. Ferill Grande hefur tekið miklum sveiflum síðastliðið árið og mikil áföll í einkalífi hennar hafa riðið yfir. Hún lætur það hinsvegar ekki á sig fá og vinnur nú að nýrri plötu, þrátt fyrir að nýjasta plata hennar Sweetener hafi aðeins komið út fyrir nokkrum mánuðum síðan.
Í myndbandinu við nýja lagið sitt, „7 Rings“, er auðæfum hampað og vinkonur Grande sjást klæddar í dýrasta skartið og klæðnaðinn. Titill lagsins birtist á ensku og á japönsku, 七つの指輪, í upphafi myndbandsins og hefur Grande verið gagnrýnd fyrir að hagnýta sér asíska og japanska menningu á vafasaman máta.
Grande ætlaði sér svo sannarlega að gera þetta nýja lag sitt ódauðlegt og fékk sér á dögunum húðflúr með titli lagsins og birti á samfélagsmiðlum. Aðdáendur hennar voru þó ekki lengi að sjá að um mikið glappaskot var að ræða, þar sem samsetning þessara tveggja stafa þýðir „BBQ Grill“ en ekki „7 Rings“ eins og var án efa ætlun Grande.
Japanska er sjálfsögðu svolítið flókin fyrir þá sem tala hana ekki og merkja þessi tákn, sjö „七“ og hringir „輪“ í sitthvoru lagi en saman „七輪“ tákna þau smágert grill sem notað er til að grilla fisk, eins og glöggir notendur Twitter bentu á.
https://twitter.com/aoi80550747/status/1090463913815138304
Grande fjarlægði myndina samstundis af samfélagsmiðlum en svaraði aðdáendum í röð tísta, sem nú virðast einnig horfin af veraldarvefnum.
Í tístunum viðurkennir Grande að nokkur tákn hafi gleymst í flúrinu og að henni sé í raun slétt sama.
„Þetta var sko drulluvont og ég finn ennþá til í þessu en þetta lítur vel út og ég hefði aldrei getað setið lengur í flúrinu og fengið fleiri tákn“ skrifaði Grande í tístinu, „en þessi staður helst ekki fallegur lengi svo þetta mun flagna af fljótlega, ef ég sakna þess eitthvað agalega, þá skal ég láta mig hafa það að fá alla stafina næst“
Hún bætti því svo við kímin að hún væri reyndar mikill aðdáandi „smágerðra fiskigrilla.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ariana fer fram úr sjálfri sér þegar kemur að húðflúrum en Grande og nú fyrrverandi unnusti hennar, Pete Davidson, fengu sér fjöldann allan af húðflúrum tilheyrandi hvort öðru á fimm mánaða löngu sambandi þeirra turtildúfa.
Best væri kannski ef Ariana myndi hugsa sig tvisvar um næst, áður en gengið er inn á húðflúrsstofuna.