Auglýsing

Nýjasta mynd Kevin Spacey fékk sögulegan skell á opnunardegi í Bandaríkjunum

Nýjasta mynd Kevin Spacey, Billionaire Boys Club, græddi einungis 126 dali á opnunardegi sínum í amerískum bíóhúsum. Myndin sem var einungis sýnd í tíu kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum fékk að meðaltali 12,75 dali á hverjum stað, sem jafngildir um tveimur bíómiðum.

Spennumyndin var sú síðasta sem Spacey gerði áður en hann var ítrekað ásakaður um kynferðislega áreitni í október á síðasta ári. Ótal aðilar sem höfðu unnið með Spacey stigu fram og sögðu frá.

Myndin skartar leikurum á borð við Taron Egerton, Ansel Elgort og Emmu Roberts í aðalhlutverkum en hlutverk Spacey í myndinni gerði það að verkum að bíógestir sniðgengu hana nánast alfarið.

Sjá einnig: Netflix hættir framleiðslu House of Cards í kjölfar ásakana á hendur Kevin Spacey

Framtíð myndarinnar var í óvissu þegar ásakanirnar komu upp en útgefandi myndarinnar, Vertical Entertainment gaf það út fyrr á árinu að myndin yrði gefin út.

„Við vonum að þessar alvarlegu ásakanir á hendur eins aðila, ásakanir sem ekki var vitað um þegar myndin var gerð, ásakanir á hendur manns sem er í litlu hlutverki í myndinni, muni ekki eyðileggja útgáfu myndarinnar. Við vonum að áhorfendur kjósi að horfa á myndina fyrir alla aðra sem komu að gerð hennar og láti ekki fortíð einnar manneskju eyðileggja allt,” sagði þá í tilkynningu Vertical Entertainment.

Alls kostaði gerð myndarinnar 15 milljónir dala eða um 1,6 milljarða króna, tekjur myndarinnar á opnundardeginum voru eins og fyrr segir 126 dalir eða um 14 þúsund krónur.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing