Mús fannst í gær í Rimaskóla í Grafarvogi en var mötuneyti skólans lokað í kjölfarið og meindýraeyðir var kallaður til. Þetta kemur fram á mbl.is.
Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem mötuneyti í grunnskóla í Reykjavík er lokað vegna músagangs. Í síðustu viku fann húsvörður í Hlíðaskóla mús í skólanum og í kjölfarið var mötuneytinu lokað.
Sjá einnig: Húsvörður Hlíðaskóla gómaði mús í skólanum, skólinn kannaður hátt og lágt næstu daga
Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að meindýraeyðir hafi verið fenginn í Rimaskóla og búið sé að opna mötuneytið á ný eftir allt var þrifið vel.
Þá segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, í samtali við mbl.is frekar óvanalegt að tilkynnt sé um tvö slík tilvik á svo stuttu millibili og segir mögulega um tilviljun sé að ræða. Hún segist ekki geta fullyrt að um músafaraldur sé að ræða en segir hins vegar að reglulega verði vart við mýs og komi öflugar meindýravarnir sér yfirleitt vel.