Maður á fertugsaldri gekk berserksgang í Gnoðarvogi rétt fyrir miðnætti í gær en fjöldi íbúa heyrði manninn öskra þar sem hann gekk með barnavagn og öskraði út í loftið. Blaðamaður Nútímans var staddur í hverfinu þegar þetta átti sér stað og hafði samband við Neyðarlínuna enda ljóst að þegar hér var komið við sögu hafði maðurinn skemmt þó nokkrar bifreiðar – bæði brotið rúður, rispað og beyglað allt sem á vegi hans varð.
Neyðarlínan gaf blaðamanni Nútímans samband við lögregluna sem var fljót á staðinn. En á meðan beðið var eftir lögreglunni þurfti að elta þennan óða mann sem virtist viti sínu fjær af neyslu vímuefna en leið mannsins lá í átt að bifreiðastæði við fjölbýlishús við Gnoðarvog. Þar braut hann fleiri rúður og eyðilagði fleiri bifreiðar en ekki þótti öruggt að nálgast manninn.
Hlupu uppi manninn og skipuðu honum að leggjast niður
Tveir vaskir lögreglumenn mættu svo á vettvang og hlupu manninn uppi sem hafði reynt að komast undan á hlaupum og var á milli fjölbýlishússins og Olís við Suðurlandsbraut. Fjöldi fólks var þá kominn út á götu í hverfinu og ljóst að fleiri höfðu heyrt öskur og brothljóð en blaðamaður Nútímans. Þegar maðurinn hafði verið settur í járn og fluttur í eina af tveimur lögreglubifreiðum var hafist handa við að bera kennsli á þær bifreiðar sem höfðu orðið fyrir barðinu á manninum.
Samkvæmt lausri talningu blaðamanns hafði hann að minnsta kosti stórskemmt fjórar bifreiðar og lítillega þá fimmtu. Það gætu þó hafa verið fleiri bifreiðar sem urðu á vegi mannsins en það kemur í hlut lögreglu sem ræddi við þá eigendur sem voru komnir út á götu rétt fyrir miðnætti í gær. Meðfylgjandi myndir og myndskeið var tekið á vettvangi í gær.