Einar Stefánsson, tónlistarmaður og viðburðarstjóri, segir það lélega afsökun hjá hátíðarhöldurum á Íslandi að það sé erfitt að finna tónlistarkonur á Íslandi. Einar bókaði sjálfu eingöngu kvenkyns listamenn fyrir dagskrá Útipúkans í ár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Sjá einnig: Dagskrá Innipúkans í ár klár
Þar er haft eftir Einari, sem vakti mikla athygli fyrr í ár sem trommugimp Hatara í Eurovision, að það hafi verið með vilja gert að bóka aðeins kvenkyns listamenn. Hann segir að það hafi tekið merkilega lítinn tíma að fullbóka hátíðina af þekktum plötusnúðum og tónlistarkonum.
Hann furðar sig á yfirlýsingum þess efnis að ekki sé til nóg af kvenkyns listamönnum í dag, árið sé 2019 og það sé nóg af flottum tónlistarkonum á Íslandi í dag.
„Það er svo oft haldnir viðburðir þar sem dagskráin er yfirtekin af karlmönnum fyrir utan kannski eina eða tvær konur,“ segir hann og bætir því við að Útipúkinn í ár sé óformlegt andsvar við þeirri reglu. Hann tekur þá fram að það hafi verið ákveðið að auglýsa ekkert sérstaklega að allir þeir sem koma fram á hátíðinni séu konur. Ítarlegt viðtal við Einar má nálgast á vef Fréttablaðsins.
Útipúkinn verður haldin 2. – 4. ágúst á höfninni fyrir aftan Bryggjuna Brugghús og Messan en fram koma meðal annars GDRN, Bríet, Svala, DJ Katla, DJ Sunna Ben, Vök og fleiri.