Ofurfyrirsætan Chrissy Teigen var stödd hér á landi á dögunum í myndatöku fyrir tískumerkið Ugg. Myndatakan fór fram ótilgreindum jökli og segir hún frá ævintýrum sínum á vef tímaritsins People.
Chrissy Teigen hefur setið fyrir í tímaritum á borð við Sports Illustrated, ítalska Vogue, Esquire, Glamour og Cosmopolitan. Hún heldur einnig út bloggsíðinnu sodelushious.com og hefur komið fram í þáttum um mat á Cooking Channel.
Teigen segist vera mikið matargat og talar um ást sína á íslensku pylsunni í viðtalinu:
Það er ekkert leyndarmál að ég elska mat! ég er algjört matargat! Ég varð ástfangin af íslenskri matargerð, sérstaklega íslensku pylsunum.
„Áður en ég lagði af stað voru allir að segja mér að ég yrði að smakka pylsurnar og að ég mætti alls ekki gleyma því vegna þess að þær væru svo frábærar — og þær eru það! Og sjávarréttasúpurnar. Ég borðaði súpu sem var elduð ofan á hraunmolum á strönd og gleymi því aldrei. Ég finn ennþá bragðið af henni og ég ber allar aðrar súpur saman við þessa einu súpu.“
Eiginmaður Teigen er tónlistarmaðurinn John Legend. Hún segir að hann sé afbrýðisamur enda mikill matmaður. „Hann elskar sjávarréttasúpu,“ segir hún.