Leikkonan Jenni Ruiza sló í gegn sem ofurmannlegur stöðumælavörður í myndbandi á Youtube í vikunni.
Búið er að horfa á myndbandið, sem er auglýsing fyrir bílasöluþjónustu á netinu, hátt í 800 þúsund sinnum. Í myndbandinu virðist Ruiza lyfta tveggja tonna leigubíl á meðan vegfarendur horfa agndofa á. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
Ruiza segir í viðtali við vefinn Vox að bíllinn hafi verið sérstaklega útbúinn fyrir auglýsinguna, meðal annars með því að taka vélina úr honum og hlaða fimm tonna lóðum í skottið.
„Að lyfta bílnum var eins og að taka upp hundinn minn sem er 14 kíló,“ segir hún og bætir við að viðbrögð fólks hafi verið ansi skemmtileg.