Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, ætlar að leggja fram formlega kvörtun vegna fréttamanns Ríkisútvarpsins. Hann er ósáttur við fréttaflutning fréttamannsins um þann ágreining sem ríkt hefur innan samtakanna.
Sjá einnig: Ólafur Arnarson segir af sér sem formaður Neytendasamtakanna
Þetta kemur fram í frétt Vísis um málið en þar segir að Ólafur telji verulega ágalla á vinnubrögðum fréttamannsins og hefur hann óskað eftir fundi með Rakel Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV, vegna málsins. Ólafur sagði frá þessu í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann sagði að fréttamaðurinn hefði í raun og veru „verið í slagtogi við þá klíku stjórnar sem farið hefur harðast fram“ gegn honum.
Ólafur sagði í gær af sér sem formaður Neytendasamtakanna. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins sagði hann stjórn samtakanna hafa borið sig þungum sökum sem séu allar á skjön við raunveruleikann, ef ekki upplognar.