Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason ætla sér að starfa saman sem óháðir þingmenn utan flokka eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins síðasta föstudag. Þetta kemur fram á Vísi í dag.
Sjá einnig: Gunnar Bragi og Bergþór Ólason taka sér leyfi frá þingmennsku
Ólafur segir í samtali við Vísi í dag að hann sé búinn að senda forseta Alþingis bréf og tilkynna honum að frá og með deginum í dag muni hann starfa sem þingmaður utan flokka. Hann viti til þess að Karl Gauti hafi sent samskonar bréf og að þeir muni hafa með sér samstarf óháðir utan flokka.
Ólafur mætti ekki á þingflokksformannafund í morgun fyrir hönd Flokks fólksins en hann var áður formaður þingflokksins. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, mætti á fundinn í hans stað.
Sjá einnig: „Algjörlega ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu“
Ólafur segir að þeim hafi ekki verið boðið að ganga í neinn annan flokk eftir að þeir voru reknir úr Flokki fólksins. Hann telur að það sé best fyrir þá að halda áfram að reka þau mál sem þeir hafi beitt sér fyrir óháðir flokkum.