Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, var gestur í Morgunkaffinu með Gísla Marteini og Björgu Magnús á Rás 2 í morgun. Þar ræddu þau meðal annars hvernig Ólafur og Dorrit, eiginkona hans, eignuðust hundinn Sám og Ólafur sagði frá ansi mögnuðu leyndarmáli.
Ólafur segist aldrei hafa verið mikill hundamaður en þegar að fjölskyldan hafi verið í sumarhúsi á Suðurlandi hafi Dorrit séð hundinn á bænum og hændist mjög að honum.
„Hún áttaði sig á því að þetta væri alveg sérstakur hundur. Hún sagði að ef hægt væri að fá afkomenda þá væri hún til í það. Ég var eins og ég segi ekki mikill hundamaður en ég ákvað svona vegna ástar minnar á Dorrit að athuga hvort ekki væri hægt að útvega henni hund,“ segir Ólafur.
Svo vildi til að fólk sem átti afkvæmi hundsins gat ekki haft þann hund áfram svo að Dorrit og Ólafur fengu hundinn Sám þegar hann var einungis ársgamall. Ólafur segir að það hafi verið fróðlegt að fylgjast með þessum magnaða hundi í gegnum tíðina.
Hann greindi svo frá því að hjónin hafi ákveðið að klóna Sám þar sem að hann væri orðinn gamall. Þau hafi farið til dýralæknis og tekið sýni af húð hans og sent út til Texas þar sem frumur hans eru ræktaðar.
„Ég veit nú ekki hvort ég á að segja frá því hérna af því að ég hef nú ekki spurt um leyfi frá Dorrit til að segja frá því þannig að þið látið það ekki fara lengra. Sámur er orðinn nokkuð gamall, hann er orðinn 11 ára þannig að Dorrit ákvað að láta klóna hann. Það eru sem sagt tvö fyrirtæki í heiminum sem klóna hunda. Annað er í Texas og hitt er í Suður-Kóreu og það er semsagt búið að því,“ segir Ólafur.
Ólafur segir að þau geti pantað nýjan Sám þegar þau vilja en Dorrit hafi ákveðið að gera það ekki fyrr en Sámur, sá upprunalegi, væri allur.
„Ég veit þá ekki hvort að Sámur yrði þá fyrsti hundurinn á Íslandi sem væri klónaður. En það sem mér finnst nú enn óhugnanlegra er að það er hægt að semja við fyrirtæki um að geyma sýnin í áraraðir gegn tiltölulega vægu gjaldi. Barnabörnin mín geta svo pantað sér nýjan Sám frá Texas þegar þau eru komin með heimili og fjölskyldi. Þetta er náttúrulega svolítið óhugnanleg veröld.“