Þráður á Twitter þar sem Andri Erlingsson rekur málið sem endaði á að fella ríkisstjórnina hefur náð gríðarlegri útbreiðslu og þá sérstaklega erlendis. Þúsundir hafa lækað og dreift tístum Andra sem eru afdráttarlaus um málið en hann hefur einnig verið gagnrýndur fyrir ónákvæmni í fullyrðingum sínum.
Rosalega er sorglegt þegar svona ónákvæmir þræðir fara á flug. https://t.co/TKxwoG3CJc
— Jóhann Óli Eiðsson (@jedissson) September 18, 2017
Það endurspeglast í tísti uppljóstrarans Edward Snowden sem vísar í þráð Andra og birtir tíst sem er ekki byggt á mikilli þekkingu á málinu
TL;DR: the Justice Minister expunged the conviction of ("restoring honor", or pardoning) friend as requested by PM's father.
— Edward Snowden (@Snowden) September 17, 2017
Andri segir í þræði sínum að barnaníðingar hafi verið náðaðir í laumi, að stjórnvöld hafi stöðvað rannsókn á málinu, að níðingur hafi brotið á sér á ný eftir að hann fékk uppreist æru og barnaníðingurinn Hjalti Sigurjón Hauksson sé fjarskyldur ættingi Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar, sem skrifaði undir meðmæli um að veita honum uppreist æru. Loks segir Andri að það sé samsæri á Íslandi um að náða barnaníðinga.
Í samtali við Nútímann segist Andri standa við það sem kemur fram í þræðinum. Hann hafnar því að það sé ónákvæmt að taka barnaníðinga út fyrir sviga þegar rætt er um uppreist æru, þrátt fyrir að lögin tiltaki þá ekki sérstaklega. „Það þætti útúrdúr að fara út í langar útskýringar um aðra glæpi; þegar ég gef upp útskýringu stuttlega á því hvernig þetta virkar tala ég um að allir geti fengið þetta,“ segir hann.
Í þræði sínum gefur Andri í skyn að barnaníðingur hafi „haldið áfram“ að brjóta af sér eftir að hann fékk uppreist æru. Inntur eftir útskýringu á því vísar hann í frétt þar sem kemur fram að Robert Downey var í júlí kærður fyrir samskonar brot og hann var sakfelldur fyrir árið 2008 og áttu sér stað á árunum 2001 til 2004. Robert fékk uppreist æru í fyrra.
Andri fullyrði í þræði sínum að Benedikt Sveinsson hafi sagst vera „að hjálpa fjarskyldum ættingja“ að fá uppreist æru. Í yfirlýsingu Benedikts um málið kemur hins vegar ekkert fram um að þeir séu skyldir. „Ég segi þetta í þeirri meiningu að Íslendingar eru flestir fjarskyldir,“ segir Andri.
„Það er bara hægt að leita að þessum mönnum í Íslendingabók því til „sönnunar“ en ég lít persónulega ekki svo á að tengslin þeirra milli sé eitthvað meira áhrifarík en t.d. tengsl okkar tveggja. Íslendingabók er heimildin mín. Það er oft mjög erfitt að útskýra í löngu máli fyrir erlendu fólki, hvað þá í stuttu formi eins og Twitter þar sem spurningar til mín glatast oft í þvögunni sem hefur myndast.“
Spurður um barnaníðingssamsæri sem hann nefnir í þræðinum segir hann að það sé sín skoðun. „En ég rökstyð hana þó. Bæði reynsla af svona málum hér og erlendis segir að net svona brotamanna eru alltaf innbyrðis tengd og fjalla oft um sameiginlega vörn,“ segir hann.
„Báðir brotaaðilar höfðu tengsl við sama þéttsetna tengslanetið. Fleiri mál hafa síðan komið upp um uppreist æru barnaníðinga. Einfaldasta ályktunin sem ég dreg af þessu er því miður að þetta tengslanet skeri sig ekki undan þessum meginreglum. Ennfremur var reynt að fela meðmælendur í báðum málum samfleytt, svo langt að það braut upplýsingarreglur ráðuneytanna. Það eitt og sér flokkast undir samsærisvilja.“
Andri segir að farið hafi verið út fyrir ramma laganna til að fela málin og að það sé samsæri til þöggunnar. „Það að farið hafi verið eftir lögum að öðru leyti breytir því ekki að dómsmálaráðuneytið fór langt umfram heimildir sínar og dómsmálaráðherra situr enn sem fastast á að það hafi verið rétt,“ segir hann.
„Forsætisráðherra sjálfur er þar meðsekur þar sem hann fékk að vita í júlí og studdi við þessar aðgerðir til að fela upplýsingar sem ekki mátti fela. Fyrir utan það hafa komið út síðan fleiri mál, eins og til dæmis það sem að virðist vera skjalafals vegna meðmæla Hjalta og þrýstingur sem var beitt til að gefa Hjalta „séns“.“
Vísar Andri þar í fréttir Vísis um að átt hafi verið við gögn sem Hjalti skilaði inn með umsókn sinni um uppreist æru og yfirlýsingu Sveins Eyjólfs Matthíassonar, fyrrverandi yfirmanns Hjalta Sigurjóns Haukssonar hjá Kynnisferðum, sem segist hafa verið beittur þrýstingi um að veita honum meðmæli.
„Þannig ég get vel talað um samsæri: Samsæri ekki aðeins til að fela aðkomu fólks að þessum málum meðvitað, heldur einnig samsæri til að safna meðmælum með þrýstingi á atvinnufólk sem starfar fyrir fyrirtæki í eigu ráðamanna og ættingja. Ég stend þar sem fastast við eigin orð.“
Andri vill einnig koma á framfæri að þráðurinn sé persónuleg skoðun hans á málinu. „Ég skrifaði þráðinn á mínu persónulega twitter og hann sprakk þaðan en hann hætti aldrei að vera að stórum hluta mín persónulega skoðun,“ segir hann.
„Margir sem gagnrýna hann gera það út frá því að hann eigi að vera óhlutdrægur en eðli samfélagsmiðla er einfaldlega þannig að það er enginn óhlutdrægur alltaf, né ræður hver einstaklingur hvað verður „viral“. Það er augljóst að ég átti persónulegar skoðanir þarna með og þær skoðanir eru mínar fyrst og fremst. Þess vegna þykir mér gagnrýni í þá áttina ekki eiga sér grundvöll. Samþykki vel að það þýði að ég sé hlutdrægur.“