Sprengjusveit Ríkislögreglustjóra var send að Stórakrika í Mosfellsbæ rétt fyrir hádegi í dag eftir að tilkynnt var um rörasprengju. Í dagbók lögreglunnar segir að sveitin hafi afgreitt málið.
Þetta er í annað sinn í þessari viku sem lögreglan er kölluð til vegna rörasprengju. Á miðvikudagskvöld fannst rörasprengja í strætóskýli á Hlíðarvegi í Kópavogi. Þá var sprengjusveitin einnig send á vettvang og sprengjunni eytt.
Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í vikunni vegna fyrri sprengjunnar kom fram að sprengjan hefði getað kostað mannslíf. Fólk sem finni sprengju sem þessa eigi alltaf að hafa samband við lögreglu og alls ekki hreyfa við henni sjálft.