Dýraspítalinn í Garðabæ hefur opnað Kattahótel vegna mikillar eftirspurnar. Kattahótelið er annað sinnar tegundar hér á landi en Kattholt hefur hingað til verið eini staðurinn sem býður kattaeigendum upp á gistiþjónustu.
Jón Örn Kristjánsson, fjármálastjóri dýraspítalans segir í samtali við Morgunblaðið að kúnnar spítalans hafi oft spurt hvort þau geti passað kettina þeirra. „Við höfum aðstöðu og pláss til þess að opna Kattahótel svo við ákváðum að slá til.”
Sjá einnig: Tíu kettlingar og einn köttur hafa fengið heimili í gegnum Keeping Up With the Kattarshians
Gestir hótelsins verða að vera full-bólusettir, ormahreinsaðir og geldir. Jón reiknar með að meirihluti hótelgesta dvelji í um tvær vikur en hægt er að bóka gistingu í allt að þrjá mánuði.
Kettirnir dvelja í stórum búrum með hillum sem þeir geta klifrað upp í. Leikaðstaða er fyrir kettina og fylgst verður með hverjum ketti fyrir sig til þess að meta hvort henti betur að hann sé einn eða með öðrum köttum. Starfsfólk spítalans er viðbúið að taka á móti köttum með ýmsar sérþarfir.
Á hótelinu er pláss fyrir tuttugu ketti en í augnablikinu gistir einungis einn köttur þar. „Þetta fer hægt og rólega af stað en við höfum fengið mikið af bókunum fyrir júlímánuð,“ segir Jón Örn við Morgunblaðið.