Reykjavíkurborg hefur hafnað umsókn um að opna veitingastaðinn Hard Rock á jarðhæð Iðu við Lækjargötu. Hlutfall veitinga- og skemmtistaða sem snúa að götunni er þegar yfir því hámarki sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi. Þetta kemur fram í afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
Nútíminn greindi frá því í desember að forsvarsmenn Hard Rock vildu opna í Iðu. Þá hafði DV greint frá því að Birgir Þór Bieltvedt, einn eigenda Domino’s á Íslandi, hafi náð samkomulagi um að opna veitingastaðinn í miðborg Reykjavíkur í sumar.
Í afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík kemur hins vegar fram að ekki sé hægt að heimila rekstur veitingastaðar á jarðhæð hússins. Kaffihús og veitingastaðir voru á efri hæðunum í Iðu þegar bókaverslunin Iða var rekin á jarðhæðinni.
Í afgreiðslunni kemur fram að hlutfall veitinga- og skemmtistaða á svæðinu sé 53 prósent. Það er yfir 50 prósent hámarkinu sem gert er ráð fyrir samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur. „Það er því ekki hægt að heimila fleiri veitingastaði á jarðhæð götuhliða á umræddu svæði,“ segir Halldóra Hrólfsdóttir verkefnastjóri í afgreiðslunni.
Í afgreiðslunni er bent á að vinna sé hafin við almenna endurskoðun á starfsemiskvótum í miðborginni. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Nútímann að það þýði ekki endilega að kvótarnir verði rýmkaðir.
Svipað mál kom upp á Laugavegi fyrir skömmu.
Veitingastaðurinn Nam opnaði í janúar þrátt fyrir að hafa verið tilbúinn til opnunar í júlí í fyrra. Ekki mátti opna staðinn vegna starfsemiskvóta í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Lausnin fólst í því að færa staðinn sex metra innar í rýminu þar sem hann sést ekki frá götunni.