DV greindi í dag frá samskiptum Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem áttu sér stað daginn sem hann lak upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos í fjölmiðla. Ekki kom fram hvað þeim fór á milli.
Fréttastofa RÚV ræddi við Gísla Frey í morgun og sagðist hann ekki muna efni samtala en fullyrti að þau hefðu ekki rætt um málefni Tonys Omos.
Í yfirlýsingu frá Sigríði, sem hún sendi frá sér rétt í þessu, kemur fram að Gísli Freyr óskaði eftir greinargerð um málefni Tony Omos í samtalinu daginn sem fréttir birtust sem byggðu á leka Gísla Freys.
Þetta er þvert á það sem Gísli Freyr sagði í samtali við fréttastofu RÚV í morgun.
Sigríður Björk er nú lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hún segist í upphafi yfirlýsingar sinnar vilja undirstrika að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara hafi samskipti hennar við Gísla Frey þennan dag átt sér stað eftir að minnisblaðinu var lekið úr ráðuneytinu.
Sigríður Björk segist hafa hringt í Gísla Frey til að svara skilaboðum. Hann hefði ekki svarað en hringt tvívegis í hana eftir það.
Í samtölum okkar óskaði Gísli Freyr m.a. eftir greinargerð frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum um málefni Tony Omos er tengdust m.a. hælisumsókn hans og því að hann var eftirlýstur á þessum tíma og talinn vera í felum á Suðurnesjum. Umbeðin greinargerð var send Gísla Frey að kvöldi 20. nóvember kl. 21.21.
Hún segir ekkert í samskiptum sínum og Gísla hafa gefið til kynna að hann hafi lekið upplýsingum til fjölmiðla. „Vitneskju mína um margrætt minnisblað hef ég úr fjölmiðlum og ég heyrði fyrst af játningu Gísla Freys í fjölmiðlum,“ segir hún.