Jón Gnarr er ekki sáttur við bensínstöðina Orkuna sem birti nýja auglýsingu á samfélagsmiðlum þar sem notuð er rödd og hljóð úr atriði þáttanna Næturvaktin. Röddin sem heyrist í auglýsingunni er rödd Jóns Gnarr þegar hann leikur Georg Bjarnfreðarson en auglýsingin vakti mikla undrun hjá listamanninum sjálfum sem hafði aldrei gefið leyfi fyrir notkuninni.
Jón Gnarr vakti máls á þessu rétt áðan á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir Orkuna hafa stolið höfundarverki sínu og rödd blygðunarlaust. Nútíminn ræddi við Jón Gnarr og spurði hvort hann hefði bara verið að sjá auglýsinguna núna?
„Já ósmekklegt, vitið þið hver gerir þetta?“
Markaðsstjórinn biðst afsökunar
Draga má þá ályktun að Orkan hafi fengið auglýsingastofu til þess að hanna umrædda auglýsingu en stöðuuppfærsla Jóns hefur greinilega vakið mikla athygli því hún var fjarlægð af samfélagsmiðlum rétt í þessu. Jón Gnarr leggst nú undir feld og íhugar næstu skref en ljóst þykir að Orkan þurfi á endanum að greiða fyrir þessa ólöglegu notkun á rödd og höfundarverki hans – hvernig svo sem hún gerir það.
Nútíminn hafði samband við markaðssvið Orkunnar og ræddi þar við Brynju Guðjónsdóttur, markaðsstjóra fyrirtækisins. Hún sagði uppruna málsins á TikTok og efnið væri framleitt af fyrirtækinu PopUp fyrir Orkuna. Auglýsingin hafi verið fjarlægð um leið og það kom í ljós að notkunin væri ólögleg.
Vinsælt efni á TikTok
„Inni á TikTok eru fullt af börnum og unglingum að leika efni úr þáttunum og við vildum taka þátt í því þar sem þetta er að „trenda“ og stöðin okkar á Laugaveginum er við húsið þar sem Næturvaktin var tekin upp. Við biðjumst innilegrar afsökunar á þessu,“ segir Brynja og bætir við að SagaFilm, sem sá um upptöku á þáttunum, hafði samband við Orkuna og benti þeim á að notkunin væri ekki heimil.
„Við óskuðum eftir því við SagaFilm að fá að nota upprunalegu hljóðbútana sem birtast okkur á TikTok til þess að nota en þá kemur í ljós að allir þessir hljóðbútar eru í leyfisleysi inni á þessum samfélagsmiðli. Ég vill því ítreka að við biðjumst innilegrar afsökunar á þessu.“