Eins og DV greindi frá um helgina sakaði bandaríska listakonan Meagan Boyd Orra Pál Dýrason, trommara Sigur Rósar um að hafa brotið á sér kynferðislega árið 2013. Orri Páll hefur nú sent frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann vísar þeim ásökunum á bug. Þá segist hann hættur í hljómsveitinni.
Boyd birti ásakanirnar í færslu Instagram-síðu sinni fyrir nokkrum dögum síðan en hún segir hið meinta brot hafa átt sér stað árið 2013 þegar liðsmenn Sigur Rósar voru staddir í Los Angeles. Í skriflegu svari til Vísis segir Boyd að hún hafi íhugað að sækja Orra til saka á sínum tíma. Þar segir hún hræðsluna hafa komið í veg fyrir að hún fór lengra með málið. Boyd ætlar nú að hafa samband við lögfræðing og meta næstu skref.
„Ég tilkynnti það ekki. Ég hef ekki talað um sársauka minn opinberlega. Ég er búin að burðast með þetta í sex ár og fyrir því eru margar ástæður. Ég var viss um að enginn myndi trúa mér. Mér leið eins og það hafi verið óábyrgt af mér að treysta honum því hann var í hljómsveit sem ég elskaði og ég dáði hann sem listamann,“ segir Boyd í færslu sem hún birti á Instagram vegna málsins.
Eftir að hún tjáði sig um málið á Instagram setti Orri sig í samband við hana. Í tölvupósti sem hann sendi Boyd, og Vísir hefur undir höndum, segist hann ekki skilja hvers vegna hún myndi ásaka hann um glæp sem hann framdi ekki. „Við skemmtum okkur vel saman. En ég braut ekki á þér,“ skrifar Orri í bréfinu sem Vísir.is birtir að hluta í frétt um málið.
Eins og áður segir greinir Orri frá því í færslu á Facebook að hann sé hættur í Sigur rós. „Vegna umfangs þessa máls hef ég ákveðið að hætta í Sigur Rós. Sú ákvörðun er mér þungbær, en ég get ekki látið þessar alvarlegu ásakanir hafa áhrif á hljómsveitina og það mikilvæga og fallega starf sem þar hefur verið unnið síðustu ár. Starf sem er mér svo kært,“ skrifar Orri.
Lesa má færsluna í heild hér að neðan
Ég vil byrja á því að þakka vinum og vandamönnum sýndan stuðning. Það er gott að finna fyrir trausti ykkar þrátt fyrir…
Posted by Orri Pall Dyrason on Mánudagur, 1. október 2018