Um hvað snýst málið?
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra kom að eigin ósk í viðtal við fréttastofu RÚV þar sem hann greindi frá því að hann hefði selt Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy, íbúð sína vegna fjárhagsörðugleika.
Sama dag kom fram á Stundinni að Illugi hefði selt Hauki íbúðina eftir að hann settist í stól menntamálaráðherra.
Hvað er búið að gerast?
Fulltrúi Orku Energy var með Illuga í opinberri heimsókn hans til Kína. Illugi var í launuðu starfi hjá Orku Energy eftir að hann vék af þingi tímabundið eftir hrun.
Illugi lét hjá líða í rúmar tvær vikur að upplýsa að stjórnarformaður Orku Energy hefði keypt íbúð hans, þrátt fyrir að vera ítrekað spurður um tengsl hans við fyrirtækið.
Hann sagði við Fréttablaðið 9. apríl að tenging hans við Orku Energy sé frá þeim tíma sem hann var utan þings og hann segir við sama blað að hann hafi engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í tengslum við starfsemi Orku Energy.
Orka Energy er orkufyrirtæki sem vinnur að þróun jarðvarmavirkjana í Kína og á Filippseyjum. Fyrirtæki er í samstarfi við kínverska orkufyrirtækið Sinopec sem er í eigu kínverska ríkisins.
Hvað gerist næst?
Illugi á eftir að svara betur fyrir málið en hann er staddur á ráðherrafundi í Kaupmannahöfn.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.