Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um öskur og ólæti úr íbúð í Hlíðunum í Reykjavík en þegar lögreglumenn mættu á vettvang kom í ljós að þar var maður að ganga berserksgang.
Samkvæmt embættinu var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar en 100 mál voru skráð í LÖKE-kerfið. Eitthvað var um aðstoðarbeiðnir vegna veikinda og svo vegna fólks í annarlegu ástandi. Um er að ræða verkefni lögreglunnar frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun.
Þá voru nokkrir ökumenn handteknir þar sem þeir voru grunaðir um ýmist akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þá var tilkynnt um þjófnað í Múlunum en fram kemur að hann hafi átt sér stað í verslun í hverfinu en lögreglumenn hafi gengið frá málinu á vettvangi.