Það var heldur betur falleg stund í þættinum Ísland í dag í gær þegar Kara Rut Hanssen hitti Amis Agaba í fyrsta sinn. Kara hefur stutt hefur Amis í gegnum ABC Barnahjálp undanfarin níu ár en hann er munaðarlaus og ólst upp á munaðarleysingjahæli í Úganda.
Kara hefur fengið fréttir og myndir af Amis allt frá því að hún byrjaði að styðja við hann en hún er fjórum árum eldri en Amis. Það voru því miklir fagnaðarfundir þegar þau hittust loksins en hann hefur alltaf kallað Köru, mömmu. „Hann kallar mig bara mömmu sína,“ sagði Kara í þættinum.
Amis er nú orðinn sænskur ríkisborgari og stundar nám í háskóla í Malmö. Hann lét gamlan draum um að hitta Köru verða að veruleika þegar hann fékk frí í skólanum og keypti sér miða til Íslands. Sindri Sindrason og þátturinn, Ísland í dag fengu að fylgjast með þessari fallegu stund.
Eftir að þátturinn var sýndur virðist sem margir hafi tekið við sér og vilja styrkja ABC Barnahjálp en heimasíða samtakanna lá niðri um stund.