Óttar Yngvason, lögmaður Náttúruverndarsamtakanna hefur beðist afsökunar á því hvaða orðalag hann notaði í viðtali við Kastljós í gærkvöldi. Ummæli Óttars hafa vakið hörð viðbrögð en þau voru á þá leið að þeir sem helst störfuðu við fiskeldi á Vestfjörðum væru helst útlendingar.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sakaði Óttar um rangfærslur og rasisma í málflutningi sínum. Þá sagði Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, ummæli Óttars lykta af ákveðinni mannfyrirlitningu.
Í bréfinu sem lesa má í heild hér að neðan. biðst Óttar afsökunar á að hafa ekki orðað hlutina betur.
„Til Einars, stjórnanda Kastljóss.
Vegna orða minna í Kastljósi í gær vill undirritaður taka fram, að þjóðerni þeirra sem vinna í laxeldi er málefninu óviðkomandi. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki orðað þetta betur.
Um leið er rétt að benda á, að starfsmannatölur sem ég nefndi áttu einungis við nýbyrjað laxeldi í Patreksfirði. Aðrar starfsmannatölur sem fram komu áttu augljóslega við meintan heildarfjölda allra eldisfyrirtækja á Vestfjörðum.
Bestu kveðjur,
Óttar Yngvason.“