Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, birtir hugleiðingar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Facebook-síðu sinni. Óttarr segist vera verulega hugsi yfir því að forsætisráðherra svari engum, dögum saman, þegar kemur í ljós að hann hafi haldið mikilvægum hagsmunum leyndum.
Þá segist hann hreinlega fá í magann yfir forsætisráðherra sem finnst eðlilegt að deila ekki kjörum sínum með þjóð sinni sem er föst innan gjaldeyrishafta.
Sjá einnig: Sex ummæli Sigmundar Davíðs í Fréttablaðinu sem ég set spurningarmerki við
„Ég á erfitt með forsætisráðherra sem takmarkar siðferðisskyldur sínar við þrengsta lagabókstaf,“ segir Óttarr og vísar í orð Sigmundar Davíðs í Fréttablaðinu í dag.
Ég held ég sé ekki einn um að eiga erfitt með forsætisráðherra sem trassar að setja sér siðareglur, rýmkar þær frekar, og hrósar sér síðan af því að sleppa réttum megin við þær á hverjum tíma.
Óttarr segist fá dálítið í magann yfir forsætisráðherra sem finnst fullkomnlega eðlilegt að deila ekki kjörum sínum með þjóð sinni sem er föst innan gjaldeyrishafta.
„Forsætisráðherra sem finnst ekki taka því að nefna milljarð á aflandseyju og líkir hagsmunum af hundruð milljóna kröfu við hagsmuni almennings í gegnum lífeyrissjóði,“ segir hann.
„Ég er verulega hugsi yfir forsætisráðherra sem svarar engum, dögum saman, þegar kemur í ljós að hann hafi haldið mikilvægum hagsmunum leyndum. Forsætisráðherra sem mætir loks í útvalda fjölmiðla og kennir stjórnarandstæðingum og fyrri ríkisstjórn um öll sín vandræði.“
Óttarr segist vita að hann sé ekki einn um að finnast þetta ekki öskra á traust og vill vita hvað Sjálfstæðisflokknum finnst.
„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í dag segist hann fagna vantrauststillögu til þess að geta rætt síðustu ríkisstjórn,“ segir hann.
„Við höfum beðið í rúma viku eftir að heyra að forsætisráðherra finnist hann vera í toppmálum og geri allt rétt og betur en aðrir. Mér finnst þetta ekki í lagi og ég veit að sama hugsa ansi margir. Ábyrgð embættis forsætisráðherra er einfaldlega meiri en þetta.
En hvað finnst Sjálfstæðisflokknum? Eru sjálfstæðismenn sammála forsætisráðherra sínum um skilgreiningar á siðferði og hvað sé eðlilegt? Ég hlakka til að frétta það. Held að fleiri séu í svipaðri stöðu.“