Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í nægu að snúast þessa dagana en með hækkandi sól má merkja aukin fjölda verkefna – það er að minnsta kosti tilfinning blaðamanns. Þetta mánudagskvöld og í raun aðfaranótt þriðjudags voru fjölmörg verkefni sem komu til kasta lögreglu á höfuðborgarsvæðinu en þar má helst nefna þá staðreynd að fimm aðstoðarbeiðnir bárust henni vegna óvelkominna aðila. Var þeim vísað á brott samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Þá var tilkynnt um innbrot í póstnúmerinu 101 auk þess sem lögreglan fékk tilkynningu um æstan aðila – lögreglan hitti kauða en sá neitaði að segja til nafns eða framvísa skilríkjum svo hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Var honum sleppt eftir að hafa að lokum gefið upp nafnið sitt.
Hér fyrir neðan eru þau verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu – sem hún kaus sjálft að minnast á í dagbók sinni og senda á fjölmiðla. Hér eru þau mál skipt niður eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglustöð 1 – Austurbær, Vesturbær, Miðborg og Seltjarnarnes
Fimm aðstoðarbeiðnir þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu við að vísa óvelkomnum aðilum á brott.
Ökumaður handtekinn í hverfi 104 grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ökumaður fluttur á lögreglustöð og laus að lokinni blóðsýnatöku.
Tilkynnt um æstan aðila í hverfi 101. Lögregla sinnti og neitaði aðilinn að segja til nafns eða framvísa skilríki. Aðilinn var handtekinn og færður á lögreglustöð og var látinn laus eftir að hafa að lokum gefið upp nafn sitt.
Tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í hverfi 101. Lögregla sinnti og er málið í rannsókn.
Lögreglustöð 2 – Hafnarfjörður og Garðabær
Ekkert fréttnæmt.
Lögreglustöð 3 – Kópavogur og Breiðholt
Tilkynnt um þjófnað í verslun í hverfi 200. Afgreitt á vettvangi.
Tilkynnt um að bifreið hafi verið ekið í gegnum grindverk við heimahús í hverfi 203. Ökumaður bifreiðarinnar fannst nálægt vettvangi og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Tilkynnt um hópslagsmál í hverfi 200 og var einn slasaður eftir. Sá slasaði fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar. Einni aðili var handtekinn grunaður um alvarlega líkamsárás og var hann vistaður í fangaklefa.
Lögreglustöð 4 – Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær
Ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Ökumaður fluttur á lögreglustöð og laus að lokinni blóðsýnatöku.
Tilkynnt um eld í heimahúsi í hverfi 112. Lögregla og slökkvilið sinntu en um var að ræða minniháttar eld á pönnu.
Lögregla sinnti eftirliti með ölvunarakstri í hverfi 270. Um 50 ökumenn voru stöðvaðir og reyndust allir vera í lagi.