Auglýsing

Páley sendir frá sér yfirlýsingu: „Allar upplýsingar veittar svo fljótt sem verða má“

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi rétt í þessu frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir að lögreglan í Vestmannaeyjum miðli öllum upplýsingum um verkefni sín svo hratt og örugglega sem mögulegt er hverju sinni.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að lögreglan í Vestmannaeyjum ætli ekki að upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr en eftir hátíðina. Páley sagði það gert til að vernda brotaþola frá ytra álagi og auka líkur á góðri frásögn.

Sjá einnig: Úlfur Úlfur hvetur Þjóðhátíð til að hlusta: „Hættið að berjast á móti og berjist frekar með“

„Sama verklag er haft allt árið og tekur það eingöngu mið af rannsóknarhagsmunum og velferð mögulegra fórnarlamba,“ segir Páley í yfirlýsingu sinni.

Um komandi Verslunarmannahelgi verða allar upplýsingar veittar um leið og talið er að það skaði hvorki rannsóknarhagsmuni né velferð brotaþola. Undir þetta falla upplýsingar um fjölda brota, eðli þeirra og allar aðrar þær upplýsingar sem almennt eru veittar.

Páley segir að umræða um að leyna eigi upplýsingum um kynferðisbrot eða draga úr hófi að veita þær séu á misskilningi eða vanþekkingu byggð. „Þvert á móti verða allar upplýsingar veittar svo fljótt sem verða má þegar búið er að tryggja velferð fórnarlamba og rannsóknarhagsmuni,“ segir hún.

„Lögreglan í Vestmannaeyjum hvetur fjölmiðla og fólk almennt til að ræða sín á milli um þann stóra samfélagslega vanda sem kynferðislegt ofbeldi er. Ábyrgðin er í öllum tilvikum gerandans og þangað þarf að skila skömminni.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing