Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson tók þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík í dag og mætti á stórglæsilegum vagni. Vagn Palla í ár var risastór hælaskór þar sem hann söng og dansaði ásamt fríðu föruneyti.
Fjölmenni hefur safnast í miðborg Reykjavíkur og er gleðin við völd. Gangan lagði af stað frá Sæbraut við Hörpu klukkan tvö og er förinni heitið í Hljómskálagarð þar sem verður útihátíð.
Páll er þekktur fyrir að búa til glæsilega vagna fyrir gönguna sem er haldin í nítjánda skipti í dag. Hann hefur áður mætt á risa svan, risa einhyrning, bleiku víkingaskipi og risa kjól.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga sem hófust á þriðjudag og enda á morgun, sunnudag.