Pétur Jóhann Sigfússon er nýr liðsmaður sketsaþáttarins Drekasvæðið, sem verður á dagskrá RÚV í mars. Þetta staðfestir Kristófer Dignus, leikstjóri þáttanna, í samtali við Nútímann.
Þættirnir verða átta talsins og tökur hófust í október. Seinni hluti takanna hefjast eftir tvær vikur og ásamt því að leika hefur Pétur Jóhann bæst í hóp handritshöfunda.
Þættirnir eru skrifaðir af Ara Eldjarn, Braga Valdimar Skúlasyni og Guðmundi Pálssyni og framleiddir af Stórveldinu. Ásamt höfundunum leika Saga Garðarsdóttir, Hilmar Guðjónsson, María Heba Þorkelsdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Nanna Kristín Magnúsdóttir í þáttunum. Og jú, Pétur Jóhann.
Pétur hefur augjóslega í nógu að snúast en Nútíminn greindi á dögunum frá því að hann fari með hlutverk aðstoðarmanns borgarstjóra í væntanlegum þáttum Jóns Gnarr.
Jón sagði í Kastljósinu milli jóla og nýárs að þættirnir sýni það sem gerist á bakvið tjöldin í pólitíkinni og hvernig kaupin gerast á eyrinni:
Þetta er svona tragíkómedía. 10 þátta sería. Mér fannst vanta í íslensk sjónvarp þessa innsýn inn í stórnsýslu og stjórnkerfi eins og í dönsku þáttunum Borgen, House of Cards og svona. Og Wire auðvitað, sem ég er mikill aðdáandi.
Jón hyggst sjálfur leika borgarstjórann. „Ég held að það verði svolítið sérstakt að ég leiki borgarstjórann af því ég var borgarstjóri,“ sagði hann.
„Svo myndi Pétur Jóhann Sigfússon leika aðstoðarmann borgarstjórans. Svo er ekki búið ákveða önnur hlutverk. Eða það er búið að ákveða en á eftir að tala við leikarana og spyrja hvort þeir séu lausir í þetta.“