Jón Gnarr var gestur í þætti Loga Bergmanns á föstudaginn og ræddi meðal annars um þættina Borgarstjórinn, sem hann vinnur nú að. Eins og fram hefur komið á Nútímanum fjalla þættirnir um borgarstjórann í Reykjavík en Jón fer sjálfur með aðalhlutverkið.
Nútíminn hefur einnig greint frá því að Pétur Jóhann fer með hlutverk aðstoðarmanns borgarstjórans en Jón vildi ekki gefa upp hvort þættirnir gefi raunsanna mynd af starfi borgarstjórans. „Ég ætla ekki að segja það. Ég ætla að halda því alveg leyndu,“ sagði Jón í þætti Loga.
Þetta er algjör snilld — þetta er ógeðslega gott stöff. Og sögulegt því þetta eru fyrstu íslensku þættirnir sem gerast inni í stjórnmálum eða stjórnsýslu.
Spurður hvort þættirnir séu í anda House of Cards sagði Jón að þeir væru svolítið í anda þeirra.
„Pétur Jóhann er þarna í hlutverki sem þú hefur aldrei séð hann í. Hann er gríðarlega útsmoginn og ósvífinn pólitískur plottari. Þannig að maður sýpur hveljur og tekur andköf þegar maður er að lesa þetta. Ég held að Pétur verði algjörlega stórkostlegur í þessu.“