Séra Bjarni Karlsson skrifaði bakþanka í Fréttablaðinu í dag þar sem hann velti fyrir sér þörfum mannkynsins á nýjum tímum. Hann segir að við séum að uppgötva að við séum ábyrgir þátttakendur í risastóru vistkerfi þar sem allt er öðru háð og fær fólk til þess að velta því fyrir sér hvort það þurfi virkilega alla hlutina sem það notar.
Á einhvern hátt tekst Bjarna að yfirfæra þessa umræðu yfir á lagafrumvarp um meðgöngurof sem nú liggur fyrir á Alþingi. Því að sjálfsögðu þegar maður ræðir náttúruvernd liggur beinast við að ræða meðgöngurof í kjölfarið.
Fyrirsögnin á Bakþönkum Bjarna er Þarf það? Hann veltir því meðal annars fyrir sér hvort að við þurfum kjöt, poka, flug til útlanda og bíl í vinnuna.
Svo tekur pistillinn skyndilega undarlega stefnu þegar hann lýsir því yfir að það sé gagnlegt að skoða lagafrumvarpið um meðgöngurof í þessu ljósi. Ekki er augljós tenging þarna á milli fyrir utan það að þetta eru hlutir sem Séra Bjarna finnst rétt að setja spurningarmerki við.
„Núna liggur sárt og flókið málefni fyrir Alþingi sem ég hef ekki svar við en grunar að gagnlegt sé að skoða í þessu ljósi; Lagafrumvarp um meðgöngurof. Annars vegar þarf að tryggja að löggjöfin viðhaldi ekki forræðishyggju gagnvart barnshafandi konum. Hins vegar verðum við að viðurkenna að fóstur í móðurkviði á sér stærra samhengi en líkama móðurinnar og að við tilheyrum samfélagi sem bindur enda á sjöttu hverja þungun. Þarf það?“ skrifar hann.
Margir hafa lýst yfir undrun sinni á pistlinum. Sjónvarpskonan Berglind Festival veltir því fyrir sér hvort að þessi bakþanki þurfi að taka þennan glataða snúning í lokin.
þarf þessi bakþanki að taka þennan glataða snúning þarna í lokin? ÞARF ÞAÐ? delete this https://t.co/ifHEMcDKfL
— Berglind Festival (@ergblind) November 14, 2018
Hildur Lilliendahl skrifaði færslu á Facebook þar sem hún segir kynsystrum sínum að leggja frá sér uppþvottaburstana. „Það er miðaldra karl aftan á Fréttablaðinu að segja ykkur hvað honum finnst um þungunarrofin ykkar!“ skrifar hún.