Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri og stofnandi ÍNN-Íslands Nýjasta Nýtt ehf, hefur sent erindi til fjölmiðlanefndar þar sem hann tilkynnir um yfirtöku Pressunnar ehf á rekstri félags síns.
Vísir, sem segist hafa bréfið undir höndum, greinir frá þessu.
Í bréfinu segist Ingvi Hrafn vera kominn á þann aldur að starfsþrek hans sé ekki jafn mikið og áður. Þá hafi reksturinn verið þungur að undanförnu.
Þá segir hann einnig að undanfarið hafi RÚV verið aðsópsmikið á markaðinum og rekstrarstaða þess félags, sem er hvort tveggja á fjárlögum og með sölu auglýsinga á samkeppnismarkaði, skekki samkeppnisstöðu annarra sjónvarpsstöðva á markaðnum.
Ingvi Hrafn segir þetta helstu ástæðu fyrir því að erfitt hefur reynst að ná saman endum í rekstri ÍNN og nú eigi hann engra kosta völ.
„Eftir að félagið hafði verið í sölumeðferð varð úr að ég er nú að ganga til samninga við Björn Inga Hrafnsson, fjölmiðlamann og félag hans Pressuna ehf. um að yfirtaka rekstur ÍNN. Frumkvæðið að þeim viðræðum er frá mér komið og ég er mjög sáttur við væntanlega aðkomu hans til yfirtöku félagsins og tel það í góðum höndum hjá honum,“ segir í bréfinu.
Ingvi Hrafn tekur það fram að ráðgert sé að hann muni halda áfram með þátt sinn Hrafnaþing þó breytt eignarhald verði á ÍNN.
Björn Ingi Hrafnsson á stærsta hlutann í Pressunni ehf.