Fjölmiðlafyrirtækið Pressan hefur keypt útgáfufélagið Birtíng sem er helsta tímaritaútgáfa landsins og gefur meðal annars út Gestgjafann, Vikuna og Séð og heyrt.
Pressan kaupir alla hluti í Birtíngi útgáfufélagi ehf. af SMD ehf, Prospectus ehf og Karli Steinari Óskarssyni.
Félagið verður sjálfstætt dótturfélag Pressunnar og heldur áfram núverandi starfsemi í breyttri mynd.
Í tilkynningu sem send var út vegna kaupanna og vísað er til í frétt RÚV segir að markmið samrunans sé að hagræða í rekstri félaganna og mynda stórt og öflugt fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði til að geta mætt samkeppni við aðra fjölmiðla, ekki síst erlenda.
Björn Ingi Hrafnsson er stærsti eigandi Pressunnar. Hann verður útgefandi Birtíngs og Karl Steinar framkvæmdastjóri. Pressan tók nýlega yfir rekstur sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN.