„Það virðist ætla að loða við ráðherra Sjálfstæðisflokksins að umhverfast í vænisjúka hrokabelgi þegar umboðsmaður Alþingis spyr þá spurninga,“ segir Stígur Helgason, fyrrverandi blaðamaður og núverandi starfsmaður Plain Vanilla, á Facebook-síðu sinni í dag.
Stígur vitnar í orð Hönnu Birnu um bréf umboðsmanns Alþingis, þar sem hún segir: „Þannig samanstendur bréf umboðsmanns Alþingis af aðdróttunum og tengingum sem ekki er hægt að túlka með öðrum hætti en umboðsmaður hafi þegar mótað sér skoðun í málinu og vilji með athugun sinni renna stoðum undir hana. Sú skoðun er bæði ósanngjörn og röng.“
Stígur segist muna hvenær ráðherra talaði síðast svona til umboðsmanns Alþingis. „Það var í mars árið 2008, þegar umboðsmaður hafði sent Árna Mathiesen spurningar um skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Þá sagði Árni í bréfi til umboðsmanns:“
Athygli vekur að spurningar yðar eru mjög ítarlegar í framsetningu og með því yfirbragði og orðavali að svo virðist sem afstaða yðar til úrlausnarefnisins kunni að vera mótuð fyrirfram. Af þeim sökum má halda því fram að svör þau sem undirritaður ber fram hér að neðan komi til með að hafa takmarkaða þýðingu þegar þér leysið úr málinu og þar með hinn sjálfsagði réttur undirritaðs til andmæla.
Stígur minnir á að Árni var dæmdur í Hæstarétti fyrir ólögmæta meingerð gegn æru annars umsækjanda og var gert að greiða honum bætur. „Það var því ljóst að spurningarnar frá umboðsmanni áttu fyllilega rétt á sér. Ég held að það sé ekki klókt af Hönnu Birnu að leita í hans smiðju eftir taktík í samskiptum við það embætti,“ segir Stígur að lokum.