Auglýsing

Ræða merkilegar konur sem skólakerfið gleymdi að minnast á

Kona er nefnd er nýtt hlaðvarp sem að þær Silja Björk Björnsdóttir og Tinna Haraldsdóttir stjórna. Fyrsti þáttur fór í loftið í gær en markmið hlaðvarpsins er bæði að kynnast og kynna merkilegar konur í sögunni, þá og nú, frá ýmsum sjónarhornum, í allskonar aðstæðum, mismunandi störfum og með einstakar sögur.

Tinna stundar masters-nám í kynjafræði og það hefur komið henni á óvart hvað það voru margar merkilegar konur sem hún lærir um sem hún hafði ekkert heyrt um áður. Henni fannst það skrítið, miðað við hvað mikið er lært um allskonar karla á fyrri skólastigum, að hún hefði fyrst heyrt um konur á borð við Simone de Beauvoir í masters námi.

„Það var eiginlega kveikjan, við fórum svo eitthvað að ræða þetta og svona pæla fram og til baka en það var ekki fyrr en ég var í einhverju bjartsýniskasti með smá aukapening í Elko að ég bara keypti mic, og þá var ekki aftur snúið,“ segir Silja Björk í samtali við Nútímann.

„Þá fórum við bara á youtube og netið, googluðum hvernig væri best að gera hlaðvarp og skelltum okkur í djúpu laugina. Okkur langar að tala um konur sem eru merkilegar, gerðu eða eru að gera eitthvað merkilegt og fjalla um þær. Það er ekki flóknara en það. Í hverjum þætti eru teknar fyrir tvær konur, Tinna fjallar um eina og ég fjalla um eina og við reynum að hafa eitthvað smá þema í gangi eða einhverja svipaða tengingu.“

Í fyrsta þættinum sem kom út í gær fjallar Tinna um Simone de Beauvoir og Silja fjallar um Marilyn Monroe. Þáttinn má nálgast á Spotify með því að smella hér.

„Okkur langar að halda þessu vikulega, birta einn þátt hvern sunnudag. Nafnið kemur frá gömlum þætti sem var á RÚV – Maður er nefndur. Okkur fannst pínu fyndið að hafa þá tengingu, tengingu í einhvern súper karlalegan karla þátt þar sem tveir karla sitja og tala um hvað það er merkilegt að vera karl. Kynjabeygðum þetta svolítið,“ segir Silja.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing