Rafmagn fór af öllum Garðabæ í dag í tuttugu mínútur í dag og þar á meðal IKEA. Óvenju margir voru í versluninni, enda margir komnir í páskafrí og segir framkvæmdastjóri IKEA að búðin hafi verið algjörlega troðin af fólki þegar rafmagnið fór.
„Það er svo heppilegt að við erum nýlega búin að fara yfir alla neyðarlýsingu í búðinni og skipta út. Ég var með dóttur minni að þvælast um búðina þegar þetta gerðist. Mér fannst fólk bara ótrúlega afslappað,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í samtali við Nútímann.
Hann segir að viðskiptavinir hafi haldið ró sinni. Vegna neyðarlýsingarinnar og díselrafstöðvar, sem gerði það að verkum að hægt var að kveikja ljós á stöku stað í versluninni, var ekki niðamyrkur og því hafi viðskiptavinum liðið betur.
Þó að IKEA sé með díselrafstöð varð að loka veitingastaðnum á meðan rafmagnið var úti þar sem hann orkufrekur. „Það er ekki hægt að steikja franskar á meðan ástandið er svona,“ segir Þórarinn.
Húsnæði IKEA í Garðabæ er á tveimur hæðum og því voru þau sem voru með barnavagna eða í hjólastól í vandræðum með að komast á milli hæða á meðan rafmagnið var úti, enda þægilegra að nota lyftuna eða rúllustiga. Þórarinn segir að eitt af því fyrsta sem starfsfólk hafi gert eftir að rafmagnið fór af hafi verið að aðstoða þessa viðskiptavini.